top of page

Hvers vegna er nauðsynlegt að sinna tómstundum á efri árum?

Tómstundir og félagsstarf fyrirbyggja félagslega einangrun, minnka líkur á þunglyndi, viðhalda færni og geta snúið við ótímabærum einkennum öldrunar.

Það er öllum mikilvægt að geta sinnt tómstundum í frítíma sínum og fáir sem hafa jafn mikið af honum og eldri borgarar. Því er það nauðsynlegt að geta boðið upp á fjölbreytta og gagnlega afþreyingu til að efla frítíma þeirra.

Ein af hindrunum í tómstundastarfi aldraðra er skortur á aðgengilegu efni og hugmyndum, því er gott aðgengi að fjölbreyttum tómstunda hugmyndum með fræðilegan bakgrunn mikilvægt fyrir starfið.

Tómstundunum á þessari síðu er skipt niður í þrjá flokka: góða, miðlungs og skerta færni. Þá er lögð sérstök áhersla á tómstundir fyrir heilabilaða.

Hugmyndir að tómstundunum eru fengnar af netinu, úr fræðibókum og rannsóknum á tómstundum aldraðra, ásamt eigin hugmyndum.

Bakgrunnur verkefnisins Tómstundir út lífið

Hugmyndin að þessu verkefni kviknaði haustið 2019 þegar ég var í áfanganum Tómstundir og aldraðir í Tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ. Ég var að taka viðtöl við eldri borgara á hjúkrunarheimili, um tómstundaævisögu þeirra, þegar ég fékk spurningu frá starfsmanni félagsstarfsins á hjúkrunarheimilinu. Þar var ég spurð hvort ég vissi um eitthvað aðgengilegt efni og hugmyndir að tómstundum fyrir aldraða. Hópurinn væri farin að eldast mikið og það væri sérstaklega erfitt að finna eitthvað við hæfi fyrir þá sem glíma við heilabilun því færni þeirra væri svo mikið skert oft á tíðum. Ég lagðist því í mikla leit að efni en fann ekkert. 

Þegar kom svo að því að velja útskrifarverkefni þá komst fátt annað að en þetta. Ég var búin að ganga með þetta í maganum í lengri tíma og því komin tími til að framkvæma.

Þetta er því verkefni mitt til BA-prófs í Tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ, ásamt því að vera samfélagsleg gjöf til allra þeirra sem hafa áhuga á að nýta sér vefsíðuna. 

Sigga%20Vigga_edited.jpg

Sigríður Vigdís Þórðardóttir

bottom of page